Arnar Þór Jónsson

Erindi forsetaframboðs

Forseti íslenska lýðveldisins er ekki upp á punt. Að minnsta kosti langt í frá eingöngu. Hann er vissulega sameiningartákn fólksins í landinu og hann er líka andlit þess gagnvart heimsbyggðinni. Hvort tveggja eru stór hlutverk og þau ber að rækja af kostgæfni. En forsetinn getur gert meira - og hann á að gera meira.

Forseti Íslands hefur ekki einungis svigrúm til þess að leggja orð í belg á ögurstundu. Á stundum hefur hann beinlínis lögbundnar skyldur til þess að grípa í taumana og vísa ágreiningsmálum í þjóðaratkvæði. Ég vil efla og nýta þann lýðræðislega rétt fólksins í landinu þegar mikið liggur við. Þess vegna gef ég kost á mér í kosningunum sem framundan eru.

Ef fram heldur sem horfir gætu ýmsar ógnir steðjað að sjálfstæði okkar sem þjóð á meðal þjóða. Óveðursskýin hrannast upp og á það hafa fjölmargir bent á undanförnum misserum. Víða sjást merki þrýstings í formi lítt dulbúinna þvingana, ásælni og ágengni erlendra hagsmunaafla. Sterkasta vörnin er fólgin í þeirri samfélagsgerð lýðræðis sem við höfum skapað og er í stöðugri lífrænni mótun í gegnum samskipti okkar. 

Heilbrigði þess samtals er forsenda farsællar ákvarðanatöku og lýðræðislegrar niðurstöðu. Einmitt af þeirri ástæðu er svo mikilvægt að hvert og eitt okkar hafi kjark til þess að þroska sína eigin sjálfstæðu afstöðu í stað óttans sem svo oft hvetur okkur til rétttrúnaðar og hjarðhegðunar. Frelsi okkar til þess að vera við sjálf, sjálfstætt fólk, er dýrmætur hornsteinn þeirrar nýju lýðræðisvakningar sem ég tel að forseti Íslands eigi að beita sér fyrir. Þegar grannt er skoðað má telja að eins og málum er háttað um þessar mundir gæti sjálfstæði þjóðarinnar í raun verið undir.

Fjöregg þjóðarinnar er fólgið í lýðveldi okkar og fullveldi. Eflaust getur ekkert okkar séð íslenskt samfélag fyrir sér án sinna sterku lýðræðishefða og ennþá síður að fullveldinu verði fórnað á altari alþjóðlegra markaðsafla. Þessar grunnstoðir okkar eru afar brýnt umræðuefni. Ekki einungis í aðdraganda forsetakjörsins heldur einnig úr hinum stóra ræðustóli Bessastaða eftir þær. 

Af þessum veigamiklu ástæðum mun ég kappkosta að hafa erindi sem erfiði í kosningunum sem framundan eru. Vonandi eigum við samleið hvað það varðar þann 1. júní næstkomandi. Fái ég til þess brautargengi heiti ég því að leggja mig allan fram í fjölbreyttum og þýðingarmiklum störfum forseta Íslands.

Undirskrift AÞJ