Sólarlag

Hver er kjarninn?

Um hvað snýst framboð til opinbers embættis? Snýst það um að leika hlutverk eða vera maður sjálfur? Á frambjóðandi að tala út frá handriti sem aðrir (t.d. PR sérfræðingar) semja eða snýst þetta um að tala út frá eigin hjarta?

Á mjólkurfernunni í dag er spurt: ,,Hvað er að vera ég?". Þetta er spurning sem ég bar oft upp við nemendur mína í lögfræði. Reynslan sýndi að flestir svöruðu spurningunni út frá hóp sem þau töldu sig tilheyra. Dæmi:

  • Ég er kona
  • Ég er Hafnfirðingur
  • Ég er KR-ingur
  • Ég er feminísti / frjálshyggjumaður / sósíalisti / anarkisti
  • o.s.frv.

Slík svör benda til að við höfum fjarlægst okkar innri kjarna. Hver er sá kjarni? Er það ,,korið" sem menn segjast vera að styrkja á nýja árinu með því að gera "core"-æfingar í líkamsræktinni? Hver er uppruni þessa orðs? Enska orðið Core er sprottið af latneskri rót. Á latínu er til orðið Cor, sem merkir bókstaflega hjarta.

Hafa Íslendingar og aðrar vestrænar þjóðir orðið viðskila við þennan kjarna eigin tilveru? Sækjum við kjarnann út fyrir okkur sjálf? Látum við aðra ráða því hvað við segjum og gerum? Leyfum við öðrum að stjórna því hver lífsskoðun okkar er?

Erum við úti á túni í þessum efnum, sbr. þegar við segjum að þessi eða hinn sé ,,í essinu sínu"? Máltækið er merkingarlaust, enda væntanlega arfaléleg þýðing, en hugsunin að baki birtist þegar hugað er að stofninum sem er væntanlega sá að viðkomandi sé "in her / his essence", þ.e. að vera í kjarnanum sínum (lat. Cor).

Íslendingar nútímans hafa fjarlægst sinn innri áttavita, sem er þeirra eigið hjarta. Þess í stað er þeim ,,sannleika" haldið að fólki (þar á meðal frambjóðendum) að hin æðsta dyggð sé að falla í hópinn / tala eftir handriti sem aðrir semja.

Amma minntist oft á það við mig að þegar einhver reyndi að hrósa Ólafi Jóhannessyni prófessor og síðar forsætisráðherra fyrir hvað hann væri lærður á sviði laganna, þá hafi Ólafur svarað með því að segja að brjóstvitið væri þó alltaf best. Ef stjórnmálamenn nútímans (og kjósendur?) hafa gleymt þessu, þá er vert að dusta rykið af þessari góðu lífssýn, sem fyrri kynslóðir þekktu vel, sbr. eftirfarandi erindi Hávamála, þar sem menn eru hvattir til að nýta eigið brjóstvit, því reynsla genginna kynslóða hefur staðfest að ráð annarra manna reynast oftar en ekki verr en þau ráð sem við getum sótt í okkar eigið hjarta. Það er æfing sem allir hefðu gott af að stunda á nýja árinu, alla daga.

Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.

E.S. Sannar ,,core-æfingar" væru hugrekkisæfingar, þ.e. að þjálfa okkur í að finna eigið hjarta / hlusta á brjóstvitið / treysta innsæinu (e. courageous, f. courageux, í. coraggioso).

Greinin birtist fyrst á Blog.is

Greinar