Forsetinn, málfrelsið og lífæð lýðræðisins
Ísland er á hraðri leið undir áhrifavald ESB. Sú vegferð nýtur stuðnings flestra þingflokka á Alþingi Íslendinga.[1] Sú afstaða þingmanna afhjúpaðist á fundi með utanríkismálanefnd 9. maí 2023. Með framlagningu frumvarps um bókun 35 er stefnan mörkuð, en frumvarpið miðar að því að lögfesta, sem almenna meginreglu, að íslensk lög skuli víkja fyrir reglum ESB ef árekstur verður.
Hvað þýðir þetta fyrir Íslendinga? Svar: Samhliða því að stöðugt fleiri málaflokkar eru felldir undir EES samninginn mun ákvörðunarvald í stórum málaflokkum flytjast frá Alþingi til ESB, eins og þegar liggur fyrir á sviði orkumála. Þetta mun hafa þau áhrif að við missum ekki aðeins frá okkur lögin, heldur einnig völdin. Í framkvæmd mun þetta auka hættu á að Íslendingar missi úr sínum höndum eignarhald og yfirráð yfir landinu, vatninu, rafmagninu og sjávarútveginum. Í stuttu máli þýðir þetta að við munum missa frá okkur frelsið og sjálfsákvörðunarréttinn.
Íslendingar verða að átta sig á að í ráðherraráði ESB ráða stærstu ríkin för og stöðugt fækkar þeim málaflokkum þar sem enn er krafist einróma samþykkis aðildarríkjanna. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að ríki geti beitt neitunarvaldi á sviði orkumála eða sjávarútvegs. Með afhendingu íslensks ríkisvalds til fjarlægra stofnana er grafið undan sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga.
Þegar þráðurinn milli valdsins og borgaranna hefur verið rofinn með þessum hætti erum við á háskalegri leið, þar sem burðarstoðir lýðræðisins falla: Í stað þess að viðurkennt sé að valdið stafi frá þjóðinni og að ríkið sé þjónn fólksins er lagt til grundvallar að valdið komi frá ríkinu og að fólkið þjóni ríkinu.
Frammi fyrir þessu verður að minna á, í aðdraganda forsetakosninganna, að tilgangur ríkisvalds er ekki að veita réttindi, heldur að tryggja þau og verja. Hvert og eitt mannsbarn, hver og einn Íslendingur, er dýrmætur, mikilvægur og einstakur. Því þarf rödd hvers og eins að fá að heyrast. Til að raddirnar hljómi, svo að valdhafar heyri, þurfum við að hafa hugrekki til að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tala út frá eigin brjósti. Slík tjáning og slíkt samtal er frumforsenda þess að þráðurinn slitni ekki milli valds og borgara. Í þessu samhengi er málfrelsið í raun lífæð lýðræðisins, sem hvorki má stífla né rjúfa.
Sem verndari stjórnarskrárinnar og íslensks lýðræðis hefur forseti lýðveldisins það hlutverk að tala kjark og þor í þjóðina þannig að hún rísi upp, taki ábyrgð á tilveru sinni og finni styrk til að standa gegn ofríkistilburðum innlendra valdamanna, erlendra ríkja og fjarlægs stofnanavalds.
[1] Sjá nánar umsögn sem kynnt var á fundinum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu
Vinsælar greinar
Sjálfstætt fólk, sjálfstæð þjóð
Meginástæða þess að ég gef kost á mér til að gegna embætti forseta Íslands er sú að ég tel ógnir steðja að okkar dýrmæta lýðveldi.
Hugvekja til Íslendinga
Ef Íslendingar ætla að vera frjáls þjóð í frjálsu landi þurfa þeir að taka ábyrgð á sínu eigin frelsi.
Hver er kjarninn?
Um hvað snýst framboð til opinbers embættis? Snýst það um að leika hlutverk eða vera maður sjálfur?