Fullveldið, forsetinn og bókun 35

Verði frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 samþykkt óbreytt á Alþingi er það að mínu viti beinlínis lagaleg skylda forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar og vísa samþykkt þeirra til þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði ég kjörinn til þess að gegna embætti forseta Íslands, og komi afgreiðsla frumvarpsins óbreytt inn á mitt borð, gef ég hér með það afdráttarlausa loforð að ég muni, lögum samkvæmt, vísa þessu framsali á fullveldi okkar til þjóðarinnar.

Varðstaða um heilbrigt lýðræði, sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar er meginástæðan fyrir framboði mínu til þessa embættis. Ég tel augljósar ógnir steðja að úr ýmsum áttum vegna ásælni gríðarlega sterkra alþjóðlegra stofnana annars vegar og undirgefni íslenskra stjórnmálamanna hins vegar.

Í fulltrúalýðræðinu kjósum við flokka á grundvelli fyrirheita. Við ráðum hins vegar engu um samningamakkið í kjölfarið, hverjir setjast í valdastólana og til hvers. Því miður sýnist augljóst að þetta fyrirkomulag er að veikjast og að sjálfstæði þjóðarinnar stafi af því ákveðin ógn. Forseti Íslands er hins vegar kosinn beinni kosningu og sama gildir um mál sem hann vísar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna getur embætti forseta Íslands skipt svo miklu máli fyrir styrk lýðræðisins.

Bókun 35 var sett inn í samkomulag Íslands við EB, Evrópubandalagið, eins og það hét árið 1993 þegar við undirrituðum EES-samninginn. Reynslan hefur sýnt að það var langt í frá rétt hjá þáverandi utanríkisráðherra að með samningnum værum við að fá „allt fyrir ekkert“ eins og hann orðaði það á sínum tíma. Nú gerir Brussel kröfu um að þessi viðauki, bókun 35, verði virkjaður og þannig lögfest sú krafa ESB að EES-reglur gangi framar íslenskum rétti ef þetta tvennt stangast á.

Ljóst er að lögfesting frumvarps um bókun 35 setur vald yfir dýrmætum innviðum í uppnám. Ef Alþingi setur svo á síðari stigum einhver lög í andstöðu við þessa forgangsreglu gæti það skapað okkur gríðarmikla skaðabótaskyldu. Ég tel í fyrsta lagi að Alþingi hafi enga heimild til að mæla fyrir um slíkt framsal lagasetningarvalds og í öðru lagi að fráleitt sé að leiða slíkt í lög án viðhlítandi umræðu í samfélaginu og beinnar aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatökunni.

Það er alveg skýrt í stjórnarskrá okkar að Alþingi fer með löggjafarvaldið. Það leikur heldur enginn vafi á því að framsal á því valdi er óheimilt. Frumvarp utanríkisráðherra brýtur gegn stjórnarskrá lýðveldisins nr. 33/1944, sem þingmenn og ráðherrar hafa raunar unnið drengskaparheit að. EES-samningurinn hefur þanist út á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá undirritun hans og í framkvæmd er fjórfrelsi samningsins að sumu leyti farið að líkjast einhvers konar „yfirstjórnarskrá“ Íslands sem jafnvel geti yfirtrompað okkar helgasta vé; sjálfa stjórnarskrá Íslands. Hjá mér hringja því margar viðvörunarbjöllur sem gera um það ríka kröfu að þjóðin verði, að lágmarki, að veita upplýst samþykki sitt fyrir valdaframsali af þessu tagi.

Allt kallar þetta á mun nánari greiningu, skýringar og rökræður. Í forgrunni stendur þar sú grundvallarspurning hver sé hinn raunverulegi kjarni sem EES snýst orðið um á árinu 2024. Smám saman hefur afhjúpast að ekki er lengur um að ræða eingöngu efnahagslegt samstarf heldur að valdataumarnir hafi í stöðugt auknum mæli verið afhentir ESB en Ísland sett í farþegasætið. Þess vegna þurfa landsmenn að eiga heiðarlegt samtal um stöðuna og möguleg viðbrögð við henni. Ef þjóðkjörnir stjórnmálamenn treysta þjóðinni ekki til slíkrar umræðu og ákvörðunartöku á forseti Íslands að taka af skarið og vísa málinu til hennar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Greinar