Getum við leyft okkur hvað sem er?
Frelsið er það dýrmætasta sem við eigum. Frjálslynd lýðræðishefð gerir þá kröfu til okkar að við virðum annað fólk og umberum skoðanir annarra í lengstu lög. Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Þá ábyrgð berum við gagnvart okkar eigin frelsi og annarra, því öllu þarf að stilla í hóf og öllu þarf að setja mörk svo það umbreytist ekki í andhverfu sína. Dyggð er jafnvægi milli tveggja öfga, eins og hugrekki er meðalhóf milli hugleysis og fífldirfsku. Á sviði tjáningarfrelsis þarf að finna mörk og gæta meðalhófs milli undirgefni og yfirgangs, milli þagnar og háreystis, milli smjaðurs og smánunar. Hér þarf að beita yfirvegun og halda sig innan ramma velsæmis, því allir vita að til er nokkuð sem kenna má við velsæmismörk. Velsæmismörkin spretta af djúpum menningarlegum og siðrænum rótum sem mótast hafa í aldanna rás og minna okkur á nauðsyn þess að við sýnum hvert öðru elsku og virðingu. Í þessu felst líka gagnkvæm viljayfirlýsing um að við viljum lifa í friði hvert við annað.
Sagan sýnir að þegar þessar umgengnisreglur eru vanvirtar þá riðar siðmenningin á fótunum og friðurinn leysist upp í ófrið. Grín og glens er nauðsynlegt á öllum tímum, sbr. m.a. hirðfífl fyrri alda sem gegndu mikilvægu starfi því háðið var og er í raun sáluhjálparatriði. Hirðfíflinu leyfðist að segja það sem engum öðrum leyfðist að segja, en til að háðið nái í gegn og skili tilætluðum áhrifum þarf að vera fótur fyrir því sem sagt er. Sérstaklega blasir þetta við þegar komið er út í alvörumál sem varða allt samfélagið miklu. Í slíkum málum geta ekki einu sinni hirðfíflin leyft sér hvað sem er. Fari menn þar út fyrir velsæmismörkin er engin ástæða til að láta það óátalið, því óskunda þarf enginn að umbera.
Á Hvítasunnudag kom yfirnáttúruleg orka yfir postulana, heilagur andi. Í dag má því hver og einn minna sig á að við höfum frjálsan vilja og val um að birta það góða og fallega sem í okkur býr og láta ljósið leiða för en ekki skuggana sem við berum öll innra með okkur. Vöndum okkur í orðum og gjörðum. Komum vel fram við aðra og hjálpum öðrum að vaxa. Þannig getur samfélag okkar orðið betra, dag frá degi.
Greinin birtist fyrst mbl.is
Vinsælar greinar
Sjálfstætt fólk, sjálfstæð þjóð
Meginástæða þess að ég gef kost á mér til að gegna embætti forseta Íslands er sú að ég tel ógnir steðja að okkar dýrmæta lýðveldi.
Hugvekja til Íslendinga
Ef Íslendingar ætla að vera frjáls þjóð í frjálsu landi þurfa þeir að taka ábyrgð á sínu eigin frelsi.
Hver er kjarninn?
Um hvað snýst framboð til opinbers embættis? Snýst það um að leika hlutverk eða vera maður sjálfur?