Sólarlag yfir Reykjavík

Láttu ljós þitt skína

Í siðmenningu kennum við börnum okkar um þau gildi sem best hafa reynst. Æðstu gildin eru trú, von og kærleikur, en rækta þarf jarðveginn til að þau verðmætu gildi geti borið góðan ávöxt í lífi okkar.

Hvert og eitt okkar hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þjónustu við Guð og menn. Til að geta áttað sig betur á hlutverki okkar og tilgangi þurfum við að beina athyglinni inn á við og tengjast fyrrnefndum gildum sem mannleg tilvera byggir á. Þau eru bjargið og undirstaða allrar mannlegrar farsældar. Grunngildin sem við byggjum líf okkar á þurfa að vera sönn og í samhljómi við innsta kjarna sálar okkar.

Samtíminn færir okkur þau skilaboð að guðstrú sé einhvers konar feimnismál, en á sama tíma eru þó hin ýmsu feimnismál gerð að daglegu umræðuefni. Hvert og eitt okkar hefur innra leiðarljós sem flestir tengja við visku hjarta síns og innsæis.

Til að geta fylgt hjartanu þurfum við að kunna að tengjast hjartanu. Í öllum þeim hraða og hávaða sem á okkur dynur frá degi til dags getur reynst erfitt að heyra rödd okkar eigin samvisku, okkar innri rödd. Leiðin til þess er, nú sem fyrr, að fjarlægjast áreitið og finna innri kyrrð. Þegar hugurinn hljóðnar má greina þá rödd sem vísar okkur veginn.

Til að hver og einn geti ratað farsæla braut í lífinu þurfum við að þora að fara okkar eigin leið, þótt það geti verið á skjön við tíðarandann. Það gerum við í trausti trúar, guðlegrar forsjónar og innri sannfæringar. Í kjölfar ótta við heimsfaraldur og stríðsógnir hafa margir fundið endurnýjaðan trúarstyrk og fundið styrk og fyrirmynd í lífi og kenningu Krists, sem enn getur verið okkur hvatning til að synda gegn straumnum (Lk. 4:28-29, Jóh. 7.53-8.11, Jóh. 18:8), verja málstað okkar jafnvel þar sem ógnin er mest (Mk. 1:14), bugast ekki gagnvart yfirvaldinu (Matt. 27:1-26), berjast gegn spilltu peningaveldi (Jóh. 2:14-16), andmæla falskenningum áhrifamikilla manna (Matt. 12-10), svara fræðimönnum sem ásaka okkur (Mk. 3:22), benda á hræsni þeirra sem telja sig betri en aðra (Lúk. 11.53-54), tjá hugsunina þrátt fyrir ytri ógnir (Mk. 11:27-28), hvika ekki frá málstaðnum og láta ekki undan í ótta (Matt. 27:27-50), mæta dauðanum af hugrekki (Jóh. 10:18; Jóh. 15:13).

Jesús Kristur er fyrirmynd, kennari og leiðtogi, en þjónum við honum best með því að setja hann á stall? Nei, miklu fremur með því að fylgja fordæmi hans. Við höfum öll þennan innbyggða áttavita. Við þekkjum öll sannleikann þegar hann mætir okkur. Okkar hlutverk er að birta hann í framkvæmd: „Þér eruð ljós heimsins“ (Matt 5:14-16).

Í góðu samfélagi eigum við lifandi og stöðugt samtal um þau gildi sem við viljum hafa að leiðarstefi. Slíkt samtal þarf að vera frjálst þannig að allir fái að tjá sig og láta sitt ljós skína. Forsenda þess að geta birt það ljós sem býr innra með okkur er að við þekkjum okkur sjálf og þorum að leyfa ljósi okkar að skína, sjálfum okkur til framdráttar og samfélaginu til heilla.

Samtími okkar hefur brýna þörf fyrir ljósbera. Þú, kæri lesandi, hefur mikilvægu hlutverki að gegna.

Grein eftir Arnar Þór Jónsson og Hrafnhildi Sigurðardóttur sem birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Greinar