Bessastaðir með eldgos í bakgrunni

Örlagaspurningar

Vonum seinna er nú hafin alvöru umræða hérlendis um svonefnda gullhúðun (blýhúðun) EES-reglna. Þessi umræða er nauðsynleg í lagalegu og hagfræðilegu tilliti, en hún er einnig nauðsynleg í lýðræðislegu tilliti.

Í lýðræðisríki mótast réttarreglur í virku samtali: Milli almennra borgara, milli sérfræðinga, milli þingmanna, í samráðsgátt stjórnvalda á netinu, á fundum þingnefnda, í ræðustól Alþingis, með álitsgerðum um áhrif nýrra reglna á önnur lög, umhverfi, efnahagslíf o.s.frv. Í stuttu máli gerir lýðræðið þá kröfu til löggjafans að lög séu ekki sett nema þau þjóni skýrum og vel rökstuddum tilgangi, standist faglegar og hagfræðilegar kröfur. Fari í gegnum hreinsunareld hreinskiptinnar umræðu á opinberum vettvangi. Gullið hreinsast í eldi og guðhræddur maður í raunum.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis var 131 stjórnarfrumvarp samþykkt á 151. löggjafarþingi, en þar af höfðu 26 tengsl við EES- samninginn. Þetta er hátt hlutfall laga sem innleidd eru hér án hefðbundinna innlendra lýðræðislegra verkferla. Í 30 ára sögu EES-samningsins hefur Ísland aldrei beitt synjunarvaldi og raunin orðið sú að fjölmargt í regluverki EES hefur verið innleitt með blýhúðun, þar sem reglunum hefur verið breytt til íþyngingar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Innviðir íslensks samfélags bera ekki mikla umframbyrði, hvorki í formi blýhúðunar né annars, enda eru þeir komnir að þolmörkum. Þetta á við um heilbrigðiskerfið, menntakerfið, vegakerfið, raforkukerfið o.fl. Skattar fara stöðugt hækkandi. Fjöldi Grindvíkinga er á hrakhólum og húsnæðisskortur er í landinu. Þrengt er að almennum borgurum með nýjum sköttum, skerðingum á valfrelsi, auknu skrifræði, miðstýringu, auk innleiðingar á alþjóðlegum boðum og bönnum. Svo virðist sem ofan á allt annað séu hinir lýðræðislegu innviðir einnig í hættu. Í þeirra stað rís nú stöðugt sjáanlegra sérfræðinga- og stofnanaveldi, þar sem frjálslyndi hörfar undan stjórnlyndi, þar sem lögin eru ekki lengur sammæli heldur valdboð, þar sem fjarlægir valdamenn móta stefnu og taka ákvarðanir án þess að við höfum tök á að láta þá svara til ábyrgðar. Vald án ábyrgðar býður heim hættu á ofríki. Til að víkja af þessari braut þarf að styrkja ábyrgðarsambandið milli ráðamanna og kjósenda. Eins og nú háttar til verður það best gert með því að auka og efla beint lýðræði. Verði það ekki gert mun áfram síga á ógæfuhliðina með þeim afleiðingum að lýðræðið mun enn veikjast.

Við stöndum á tímamótum sem samfélag. Við getum valið að verja þau gildi sem best hafa reynst, verja undirstöðurnar, landið okkar, frelsið, fjölskyldur okkar og réttarríkið. Hin leiðin liggur í átt til sífellt meiri miðstýringar, þar sem stjórnað er með tilskipunum þar sem lögin verja ekki lengur borgarana heldur yfirvöld, þar sem lagabókstafurinn er notaður til endurskilgreiningar á öllu því sem stjórnvöld vilja hagræða sér í hag.

Við getum valið að stefna í lýðræðisátt. Örlög lands og þjóðar eru að miklu leyti í okkar eigin höndum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Greinar