Pólitísk reikningsskil munu eyða fallvöltum vinsældum

Íslendingar sem beita gagnrýninni hugsun hljóta að spyrja sig daglega hvaða hagsmunum kjörnir fulltrúar okkar eru í reynd að þjóna. Ríkisvaldið getur ekki rekið pósthús sómasamlega, en vill þó öllu ráða, m.a. hvaða orð við notum og hvernig við ferðumst. Smám saman þrengja handhafar ríkisvalds sér stöðugt lengra inn á svið einkalífs okkar um leið og þau seilast dýpra í vasa okkar til að fjármagna eigin ofvöxt. 

Stjórnmálaflokkarnir gefa út loforðalista fyrir hverjar kosningar en sameinast svo um að svíkja kjósendur sína næstu fjögur árin. Erfitt er að sjá hvað greinir flokkana að í framkvæmd. Í þessu ljósi má undrast mælingu nýrrar könnunar Maskínu um traust til ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, þar sem forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra verma 1. og 3. sætið.  

Flestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að fólk fái að taka ábyrgð á sér sjálft. Þessir kjósendur eru íhaldssamir í þeim skilningi að þeir vilja fara gætilega í breytingar og frjálslyndir i þeim skilningi að þau vilja að ríkið virði frelsi okkar til orðs og athafna en misvirði einstaklinginn ekki með því að fara með hann eins og hluta af ópersónulegum hópi sem megi smala í hjarðir og reka áfram með óttastjórnun, þvingunaraðgerðum og valdboði. Þessum kjósendum hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins margvíslega brugðist á síðustu árum. Alvarlegasta tilvikið var stuðningur þingflokksins við frumvarp þáverandi utanríkisráðherra um bókun 35, sem þjónaði hagsmunum ESB fremur en Íslands

Kjósendur VG eru margir hverjir íhaldssamir á sinn hátt, en leggja áherslu á að við tökum sameiginlega ábyrgð á þeim sem verst standa, og að hinir efnameiri greiði meira í sameiginlega sjóði en þeir efnaminni. 

Á milli þessara tveggja póla ætti að vera hægt að eiga siðrænt, vitsmunalegt, pólitískt samtal. Hafi það verið hægt í upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs virðist sá þráður vera um það bil að slitna. Ein skýringin er mögulega sú að forsætisráðherra hefur meiri áhuga á að sinna öðru en innanríkispólitík, enda hefur hún skuldbundið sig til að ganga erinda WHO, sem sendiherra þeirrar stofnunar enda þótt WHO hafi sjálfstæða útþenslu- og valdastefnu sem miðar leynt og ljóst að því að þrengja að þjóðríkjunum, auk þess sem meira en 75% rekstrarfjár WHO er skilyrt fjármagn (e. with strings attached). Að forsætisráðherra Íslands skuli hafa tekið að sér að ganga erinda slíkrar stofnunar ber vott um alvarlegan dómgreindarbrest.

Öllum má vera orðið ljóst að við búum við falskt lýðræði, innantóma skel, þar sem fulltrúar okkar þjóna öðrum hagsmunum en þeirra sem landið byggja. Eru Íslendingar svo þýlyndir að þeir sætti sig við svona stjórnarfar?

Greinin birtis fyrst á Blog.is.

Greinar