Við stöndum á krossgötum

Við stöndum á krossgötum

Sem fámennt ríki með merka lýðræðissögu eru Íslendingar í betri stöðu en margar aðrar þjóðir til að veita þessu viðnám.

Lýðræði á Íslandi, eins og annars staðar á Vesturlöndum, er á fallanda fæti. Eins og ég hef rakið í fyrri greinum er lýðræðinu nú ógnað bæði innan frá og utan frá. Engu virðist skipta hvaða flokka við kjósum á þing, því niðurstaðan verður alltaf sú sama: Að framfylgja stefnumörkun sem kemur frá alþjóðlegum stofnunum án lýðræðislegrar umræðu innanlands, hömlulaust innstreymi erlendra reglna, aukin áhrif ESB og stofnana SÞ, aukin miðstýring, hærri skattheimta, meira eftirlit, þrengri skorður utan um atvinnulíf og einkalíf. Upptalningin gæti þakið heila blaðsíðu.

Þessa þróun verður að ræða út frá mörgum hliðum og leita skýringa. Einn þátturinn í þessu er hvort við það verði unað að forsætisráðherra landsins gegni sendiherrahlutverki í þágu SÞ og sinni þar erindrekstri sem mögulega er ósamræmanlegur hlutverki hennar sem forsætisráðherra. Á síðasta kjörtímabili lagði utanríkisráðherra fram frumvarp um bókun 35 sem fremur þjónaði hagsmunum ESB en Íslands. Frammi fyrir öllu framangreindu verður að gera þá kröfu að stjórnmálamenn – sem og kjósendur – séu vakandi fyrir þeim hagsmunaárekstrum sem upp kunna að koma. Enginn getur þjónað tveimur herrum.

Við búum í raun orðið við einhvers konar stofnanaræði, þar sem stórum og smáum ákvörðunum er útvistað til skrifstofumanna í Brussel, Dúbaí og víðar, sem starfa undir áhrifum þrýstihópa, undir merkjum alþjóðlegra stofnana sem ekki bera hag Íslands sérstaklega fyrir brjósti. Yfir vötnum stjórnmálanna svífur nú stöðugt ágengari andi sameignarstefnu, sem leyfir að hagsmunum einstaklinga og þjóða sé fórnað til að „bæta hag heildarinnar“ (e. the greater good). Saga 20. aldar sýnir skýrlega hvílíkar hörmungar slík stefna getur leitt yfir einstaklinga og þjóðir.

Með hverju árinu sem líður er verið að festa lýðveldið okkar í stöðugt þéttara neti alþjóðlegra sáttmála og alþjóðaskuldbindinga, sem í framkvæmd valda því að valdið verður stöðugt fjarlægara hinum almenna kjósanda. Þráðurinn milli valdsins og almennings er að slitna. Þetta er að gerast fyrir tilstilli ESB og SÞ, sem þvert gegn sögulegum, menningarlegum, trúarlegum og lagalegum hefðum byggja á því að valdið komi ofan frá og niður, m.ö.o. ekki að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni eins og lagt hefur verið til grundvallar í íslenskum stjórnskipunarrétti alla lýðveldissöguna og mótaði raunar afstöðu Íslandinga á þjóðveldisöld og sennilega lengst af í réttarsögu Íslands.

Við erum að nálgast krítískan tímapunkt, sem er svo stór og háskalegur að okkur leyfist ekki lengur að skoða málið í hinu smáa samhengi eða halda að lausnir fyrri tíma dugi til varnar. Stóra myndin er vissulega ekki glæsileg, en fram hjá henni verður ekki lengur litið.

Sem fámennt ríki með merka lýðræðissögu eru Íslendingar í betri stöðu en margar aðrar þjóðir til að veita þessu viðnám. Besti öryggisventill okkar er lýðveldisstjórnarformið, sbr. 1. gr. stjórnarskrárinnar, sem miðar að því að tryggja nauðsynlegt jafnvægi milli almennings og stjórnarstofnana. Í þessum anda voru sett í stjórnarskrá ákvæði um borgaralegt frelsi sem í raun er upptalning á því sem ríkið má ekki skerða. Lýðveldið, með neitunarvaldi forseta og endurskoðunarvaldi dómstóla, á að tryggja að Alþingi setji engin lög sem svipta minnihlutann frelsi til tjáningar, til funda o.s.frv.

Að þessu hefur verið vegið mjög alvarlega á síðustu árum og sú þróun er enn í fullum gangi, sbr. stöðugt ágengara regluverk ESB, SÞ og WHO. Öryggisventlar stjórnarskrárinnar hafa brugðist í þessu samhengi. Þá þarf að virkja að nýju. Sterkasta viðnámið væri í því fólgið að forseti lýðveldisins beiti valdi sínu samkvæmt 26. gr. stjskr. í hvert sinn sem Alþingi lætur frá sér fara lög er samræmast ekki skyldum þingsins við þjóðina, við lýðveldið og framangreindar undirstöður lýðræðis og frelsis, sem Íslendingar vilja búa við.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Greinar